Lög Sjúkranuddarafélags Íslands

Heiti félagsins, heimili, varnarþing og markmið
1. gr.
 • Heiti félagsins er Sjúkranuddarafélag Íslands, skammstafað SNFÍ, stofnað 23. maí 1981.
 • Lögheimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
 • Starfssvæði þess er allt landið.
 • Félagið er fagfélag sjúkranuddara.

 

2. gr.

Tilgangur þess er:

 • Að vinna að hagsmunamálum félagsmanna, vernda réttindi þeirra og beita sér gegn hvers konar misrétti í launagreiðslum og starfskröfum.
 • Að vinna að bættri heilbrigðisþjónustu í landinu.
 • Að vinna að samstöðu félagsmanna og efla samheldni stéttarinnar m.a. með útgáfustarfsemi, fræðslufundum, skemmtunum og annarri félagsstarfsemi.
 • Að stuðla að aukinni og bættri menntun félagsmanna og endurmenntun.
 • Að annast gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn og standa vörð um áunnin réttindi.
 • Að stuðla að samstarfi við hliðstæð samtök innanlands og utan.
 • Að mennta og þjálfa trúnaðarmenn félagsins.
 • Að gæta virðingar stéttarinnar og vera málsvari hennar.
 • Að gæta að öðru leyti hagsmuna og réttinda félagsmanna varðandi störf þeirra og koma fram fyrir þeirra hönd.

 

Aðild, umsókn og brottrekstur
3. gr.
 • Rétt til aðildar að félaginu hafa þeir sem uppfylla kröfur reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara, útgefna af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti 1987.
 • Skrifleg umsókn þarf að berast stjórn félagsins, sem veitir nýjum félagsmönnum inngöngu, að fengnu samþykki aðalfundar.
 • Skrifleg úrsögn þarf að berast stjórn félagsins. Úrsögn tekur gildi næstu mánaðarmót eftir að hún er lögð fram.
 • Þrátt fyrir úrsögn úr félaginu getur einstaklingur verið skyldaður til að greiða gjöld til félagsins meðan hann þiggur laun og nýtur annarra kjarasamningsbundinna réttinda samkvæmt kjarasamningum þess.
 • Erlendir sjúkranuddarar hafa tillögurétt fyrsta árið sem meðlimir en ekki atkvæðisrétt og greiða aðeins hálft félagsgjald. Eftir eitt ár greiða þeir fullt félagsgjald og öðlast um leið full réttindi og atkvæðisrétt.

 

4. gr.
 • Allir sem eiga aðild að félaginu, eru skyldugir til að hlýða lögum þess.
 • Félagsstjórn getur vikið manni úr félaginu hafi hann að dómi stjórnar og/eða siðanefndar félagsins misnotað nafn félagsins eða orðið sekur um meiriháttar brot er gæti varpað rýrð á starfsheiður stéttarinnar, eða framið ítrekuð brot gegn lögum félagsins, samþykktum eða hagsmunum. Félagsmaður á rétt á að bera ákvörðun stjórnar um brottvikningu úr félaginu undir aðalfund/félagsfund.
 • Einfaldur meirihluti fundar ógildir fyrri ákvörðun stjórnar um brottvikningu.

 

Félagsgjöld
5. gr.
 • Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi og greiðist í einu lagi. Gjalddagi er 1. apríl ár hvert.
 • Ef sótt er um aðild að félaginu fyrir 1. júlí skal greiða fullt félagsgjald yfirstandandi árs, annars hálft.
 • Greiði félagi ekki árgjald tvö ár í röð skal honum vísað úr félaginu. Stjórn skal gera viðkomandi viðvart með tveggja mánaða fyrirvara.
 • Reikningsár félagsins er almanaksárið.
 • Reikningar skulu yfirfarnir af endurskoðanda fyrir aðalfund.
 • Reikingar skulu undirritaðir af endurskoðanda og samþykktir á aðalfundi.

 

Starfssvið sjúkranuddara
6. gr.
 • Sjúkranuddurum ber að starfa eftir reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og fara að læknalögum.

 

7. gr.
 • Starfsvettvangur sjúkranuddara er á heilbrigðisstofnunum og einkareknum stofum.
 • Með sjúkranuddi er átt við nudd í lækningaskyni.

 

8. gr.
 • Sjúkranuddara er óheimilt að stunda nuddkennslu sem felur í sér starfsviðurkenningu nema við viðurkennda sjúkranuddskóla, þar með talið kennslu á námskeiðum fyrir aðra en faglærða og viðurkennda heilbrigðisstarfsmenn.
 • Undanþegið er námskeiðahald sem hugsað er til einkanota og veitir engin réttindi.

 

Aðalfundur
9. gr.
 • Allir félagsmenn eiga rétt til setu á aðalfundi.
 • Skriflegt fundarboð skal sent félagsmönnum tveimur vikum fyrir aðalfund og skal miðað við póststimpil.
 • Í aðalfundarboði skal vera:
  1. Dagskrá aðalfundar.
  2. Tillögur til lagabreytinga ef einhverjar eru.
 • Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

 

10. gr.
 • Aðalfundur SNFÍ fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Hann skal halda fyrir maílok ár hvert.
 • Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi liðir:
  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar.
  3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  4. Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga.
  5. Skýrslur nefnda.
  6. Lagabreytingar.
  7. Fjárhagsáætlun, ákvörðun um félagsgjald og önnur gjöld ef um þau er að ræða.
  8. Kosning formanns.
  9. Kosning stjórnar.
  10. Kosning fulltrúa í fastanefndir.
  11. Kosning endurskoðanda.
  12. Önnur mál.

 

11. gr.
 • Atkvæðisrétt á aðalfundi og félagsfundum hafa fullgildir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið.
 • Allar kosningar eru bindandi og skulu fara fram skriflega ef fleiri en einn eru í kjöri. Falli atkvæði jafnt skal kosið að nýju, en fáist þá eigi úrslit ræður hlutkesti formanns.
 • Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum og tillaga fellur á jöfnu.

 

Stjórn
12. gr.
 • Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur varamönnum sem kosnir eru á aðalfundi félagsins til tveggja ára í senn.
 • Formann skal kjósa sérstaklega, en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum og kýs sér varaformann, gjaldkera og ritara á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

 

13. gr.
 • Kosning formanns og meðstjórnenda skal vera leynileg. Kjörgögn skulu vera með þeim hætti að tryggð sé jöfn aðstaða allra kjörgengra félaga til leyndar.
 • Annað hvert ár skal kjósa formann og 3 stjórnarmenn en hitt árið skulu kosnir 3 stjórnarmenn.

 

14. gr.
 • Formaður boðar stjórnarfundi eftir þörfum, þó skulu fundir ekki vera sjaldnar en ársfjórðungslega.
 • Stjórnarfund skal halda ef tveir stjórnarmenn óska og skal hann haldinn innan viku frá því óskin er lögð fram.

 

15. gr.
 • Formaður stýrir stjórnarfundum. Hann er fulltrúi félagsins út á við og undirritar alla samninga. Hann hefur umsjón með öllum rekstri félagsins og sér um framkvæmdir þess eftir föngum. Hann sér einnig um bréfaskriftir í nafni félagsins og undirritar bréf þess.
 • Varaformaður gegnir formannsstöðu í forföllum formanns og skal hann taka virkan þátt í störfum félagsins svo hann geti tekist á hendur störf formanns með stuttum fyrirvara.
 • Ritari annast og varðveitir afrit af öllum bréfum sem félagið sendir frá sér og berast til þess á aðgengilegan hátt. Hann skal einnig rita fundargerðir stjórnarfunda og almennra funda. Ritari sér um að fundargerðir séu sendar til félagsmanna í síðasta lagi viku eftir alla fundi, sem haldnir eru í nafni félagsins, og sér jafnframt um félagatal félagsins. Ritari hefur umboð til þess að undirrita bréf í nafni félagsins.
 • Gjaldkeri annast allar fjárreiður félagsins og heldur nákvæmt bókhald yfir fjárhag þess. Hann skal einnig innheimta árgjald félagsins. Sjóði félagsins skal geyma á vöxtum í banka.

 

16. gr.
 • Stjórn félagsins fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda, fylgir eftir lögum félagsins og samþykktum, er í forsvari fyrir það út á við og ber sameiginlega ábyrgð á eignum og sjóðum félagsins.

 

Trúnaðarmenn *
17. gr.
 • Stjórn félagsins skal sjá um að félagsmenn kjósi sér trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt því sem heimilað er í lögum 94/1986 um kjarasamning opinberra starfsmanna eða því sem samið kann að vera um í kjarasamningum.
 • Trúnaðarmaður skal kosinn til tveggja ára. Kosningu skal vera lokið fyrir 1. október.
 • Hætti trúnaðarmaður störfum áður en kjörtímabili hans lýkur skal kjósa annan í hans stað til tveggja ára.
 • * Á við ef um stéttarfélag er að ræða.

 

Lagabreytingar
18. gr.
 • Lögum má aðeins breyta á aðalfundi.
 • Tillögum að lagabreytingum skal skilað skriflega til stjórnar fyrir 1. mars ár hvert.
 • Tillögur að lagabreytingum skulu auglýstar með fundarboði, tveimur vikum fyrir aðalfund.
 • Til að lagabreytingatillögur öðlist samþykki þurfa 2/3 fundarmanna að vera þeim fylgjandi.
19. gr.
 • Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt á aðalfundi félagsins.

 

Ýmis ákvæði
20. gr.
 • Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga samkvæmt lögum þessum.
 • Hætti félagið störfum skal heilbrigðisráðuneytinu falin umsjón eigna félagsins. Verði innan fimm ára stofnað annað félag, sem ótvírætt telst arftaki SNFÍ, fær það eignirnar, en að öðrum kosti fær heilbrigðisráðuneytið þær til frjálsrar ráðstöfunar.