Siðareglur Sjúkranuddarafélags Íslands

1. grein

Sjúkranuddari virðir mannhelgi skjólstæðinga sinna og ber hag þeirra fyrir brjósti hver sem starfsvettvangur hans er.

2. grein

Sjúkranuddari gætir fyllstu þagmælsku um þau mál sem hann kann að verða áskynja í starfi sínu. Undantekningu frá þagnaskyldu má einungis gera með leyfi skjólstæðings eða samkvæmt lagaboði. Séu persónulegar upplýsingar um skjólstæðing notaðar sem fræðsluefni skal fá til þess leyfi frá skjólstæðingi og/eða aðstandendum hans og skal þá nafnleyndar gætt sé þess óskað.

3. grein

Sjúkranuddari skal ávalt standa vörð um réttindi skjólstæðinga sinna. Hann skal bera virðingu fyrir þeim, einkalífi þeirra og eigum. Sjúkranuddari skal rækja starf sitt af samviskusemi, óháð þjóðerni, kynþætti, trúarbrögðum og kynferði skjólstæðings. Sjúkranuddari sinnir ekki starfi sínu undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra efna sem slæva dómgreind hans og athygli.

4. grein

Sjúkranuddari skal einungis taka að sér starf eða ráðgjöf sem hæfir menntun hans. Hann skal leitast við að veita þjónustu skv. ströngustu faglegu kröfum. Sjúkranuddara ber að viðhalda faglegri þekkingu sinni eins og kostur gefst.

5. grein

Sjúkranuddari vísar skjólstæðingi til annars aðila telji hann hag hans betur borgið með þeim hætti.

6. grein

Sjúkranuddari skal jafnan sýna drengskap í samskiptum við starfsfélaga. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt getur álit almennings á starfi sjúkranuddara eða skert hagsmuni stéttarinnar.

7. grein

Sjúkranuddari vinnur af heilindum og heiðarleika í öllu samstarfi með hagsmuni skjólstæðinga sinna að leiðarljósi.

8. grein

Sjúkranuddara ber að auglýsa þjónustu sína eða starfsemi á málefnanlegan hátt og gefur ekki í skyn faglega yfirburði umfram aðra fagmenn í auglýsingum eða annarri umfjöllun í fjölmiðlum. Umfjöllun sjúkranuddara um vörur og þjónustu skal vera fagleg og án þess að halda á lofti yfirburðum viðkomandi vöru eða þjónustu.

9. grein

Verði sjúkranuddari þess var að starfsfélagi hans hafi brotið siðareglur ber honum að ræða brotið við viðkomandi. Sé það árangurslaust ber að tilkynna brotið til siðanefndar SNFÍ.